Grænmeti í súrdeigstempura

Við borðum rosalega mikið grænmeti á okkar heimili. Frá áramótum höfum við verið í áskrift hjá Austurland Food Coop og fáum því vikulega fullan kassa af frábæru grænmeti og ávöxtum. Ég get ekki lýst því hvað ég elska þessa áskrift mikið. Það er svo gaman að elda úr svona góðu hráefni og maturinn verður svo litríkur og fagur. Börnin mín elska þetta og borða eiginlega allt grænmeti af bestu lyst. Í samkomubanninu bjargaði þessi kassi okkur alveg og við biðum spennt eftir kassa vikunar. Af matartengdum hlutum þá elska ég súrdeigið mitt mest, því næst grænmetiskassan og svo Ooni pizzaofninn, svona ef einhver vildi fá röðina á þessu. Ég hef s.s. mikið verið að elda úr nýju grænmeti og prufa nýjar uppskriftir. Og eitt af því er grænmeti í súrdeigstempura. Það er fljótlegt, einfalt og gott ef maður á afgangssúr og grænmeti sem maður veit ekki alveg hvað maður vill gera við. Það er hægt að hafa það sem meðlæti, í hádegismat með salati, sem bjórsnakk..

Það er kannski svolítið ofaukið að kalla þessa uppskrift tempura en mér finnst ekki hægt að segja súrdeigshjúpað grænmeti eða súrdeigsdeig til steikingar. Svo að við köllum þetta bara tempura. Það hljómar smart. Það er kannski líka ofaukið að kalla þetta uppskrift, þetta er bara mun frekar hugmynd sem má útfæra á óteljandi vegu. Ég hef gert tvær týpur, annarsvegar grænmeti steikt eingöngu uppúr súrdeigi en hinsvegar grænmeti sem var fyrst velt uppúr súr og svo uppúr brauðraspi sem að ég gerði úr gömlu súrdeigsbrauði (sjá á efstu mynd). Myndi segja að þannig sé maður algjörlega að maxa hina hagsýnu húsmóður. Ég muldi bara ansi gamalt súrdeigsbrauð og bætti Herbs de Provence, parmesan eða næringargeri, salti og pipar útí. Ég hef líka sett bbq krydd, papriku, chillie duft, cayen pipar. Það er s.s. frjálst val.

Þessir sveppir voru bara steikir uppúr súrdeigi


Það má líka nota svona súrdeigstempura til þess að gera blómkálsvængi með buffaló sósu (kredit á Magneu fyrir það). Bara það sem ykkur dettur í hug. Það besta við þessa uppskrift er að þið getið notað hvaða grænmeti sem er; kartöflur, gulrætur, sveppi, strengjabaunir, rótargrænmeti.. þið skiljið hvert ég er að fara.

Grænmeti í súrdeigstempura
Erfiðleikastig 0 á skalanum 1 til 5

Innihald
Súr – tilvalið að nota afgangssúr
Grænmeti skorið í bita – sjá ábendingu hér að ofan
Dass af vatni eða jurtamjólk
Salt og pipar
Brauðraspur – sjá ábendingu hér að ofan. Má sleppa.
Olía til steikingar

Skerið grænmeti í bita eða strimla og gætið þess að hafa það ekki of þykkt svo að það nái að steikjast í gegn. Setjið svolítið af súr í skál, allavega um einn desilítra. Það þarf samt ekki að mæla, það má bara skvetta. Mér finnst sjálfri best að nota súr svona 4 – 6 tímum eftir fóðrun, annars finnst mér hann stundum verða of súr á bragðið. En, súr er misjafn eins og hann er margur sem og smekkur hvers og eins svo enn einu sinni: you do you. Ef að súrinn er vel þykkur þá er gott að skvetta smá af jurtamjólk eða vatni útí til að þynna hann aðeins. Hann má vera aðeins þynnri en pönnukökudeig. Setjið líka smá salt og pipar útí. Ef að þið ætlið líka að velta grænmetinu uppúr brauðraspi þá setjið þið raspinn í aðra skál. Hitið ágætt magn af olíu á pönnu á meðalhita. Ég vildi ekki djúpsteikja heldur hafa nóg til að geta steikt á báðum hliðum. Veltið grænmetinu uppúr súrnum og brauðraspnum ef vill og steikið á öllum hliðum þar til það er orðið gullbrúnt og steikt í gegn. Ég mæli með að hafa einhverja góða sósu með líka. Ég hef bara gripið það sem er til, chipotle majó, mango aioli, júgórtsósa með kryddjurtum o.s.frv. Þið gerið bara eins og ykkur finnst best.

Verði ykkur að góðu!

Tortilla úr súrdeigi

Ein PSA áður en lengra er haldið. Nýbakað er komið á Instagram. Þar er hægt að fylgjast með daglegu súrdeigsbrasi. Líka þegar ég brenni pizzuna og missi allar morgunverðabollurnur í gólfið á leið í ofninn. Ég tek fagnandi við meira súrdeigsspjalli þar.

En að máli málanna. Súrdeigstortilla. Ég er óskaplega þakklát fyrir að eiga þolinmóða fjölskyldu sem umber allt mitt vesen. Við höfum borðað fáránlega seint því að ég hef neitað að borða fyrr en brauðið sem ég er að baka er tilbúið. Þau hafa borðað gallsúrt sætabrauð og látið eins og það sé mjög gott. Og þau hafa borðað allskonar misheppnaðar útgáfur af tortillakökum, m.a. þykkar, litlar, stökkar og súrar, því ég hef lengi verið að reyna að finna almennilega uppskrift. Og loksins tókst mér að gera mjúkar tortilla sem var hægt að rúlla vel út og bökuðust svona ljómandi vel. Dios míó! Mikið var ég glöð því að ég held að tortilla sé alveg fullkominn bakstur fyrir umfram súr.


Súrdeigstortilla – um 6 – 8 miðlungsstórar tortilla-kökur
Erfiðleikastig 2 á skalanum 1 til 5

Tímatillaga: Gefið súrnum kvöldið fyrir bakstur. Blandið deigið morguninn eftir. Rétt fyrir kvöldmat mótið þið svo tortillurnar og steikið þær.

Innihald
220 gr. hveiti (ég notaði 150 gr. af rauðu kornaxi og 70 gr. af manitoba)
5 gr. salt
1 gr. lyftiduft (ca. hálf teskeið)
30 gr. smjör, skorið í litla teninga
65 gr. af súr
100 gr. volgt vatn

Halda áfram að lesa „Tortilla úr súrdeigi“

Súrdeigsflögur

Ég veit ekki með ykkur, en ég elska Costco. Síðan búðin opnaði höfum heimilið farið í gegnum mörg kíló af þurrkuðu mangói og apríkósum, borðað smátómata, búffaló-ost og hummus í öll mál og ég er að verða búin að baka mig í gegnum tvo 16 kg. hveitipoka – ég mæli s.s. með kanadíska, próteinríka hveitinu. En það er það sama með sumt sem ég kaupi í Costco og við súrinn. Stundum á ég umfram magn af einhverju. T.d. hummus. Og ég þoli ekki að henda mat né hella súr. Svo að um daginn sló ég tvær flugur í einu höggi og bjó til súrdeigsflögur til að borða með hummusnum.

Það er ekkert svo langt síðan að það var í tísku að svona flögur komu fyrir mat, með salati eða súpu. Ég man t.d. eftir því að hafa fengið svona rúgbrauðsflögur á einhverju fjúsjón veitingarhúsi fyrir einhverjum árum. Þessi uppskrift er s.s. aðeins á eftir tískunni en ég fíla hana samt.

Þetta er alveg lygilega einfalt og gott og það má auðveldlega bragðbæta hana á allan mögulegan máta.

DSCF5951

Súrdeigsflögur – ca. ein bökunarplata
Erfiðleikastig 1 á skalanum 1 til 5

Innihald
2 dl. súrdeigsmóðir
Örlítið af mjöli, má vera hvaða mjöl sem er
Flögusalt
Hér má svo leika sér að vild. Ég setti nokkrar matskeiðar af parmesan og rósmarín í eina uppskriftina. Það var mjög gott. Það má vel setja chilli og papriku, mylja kúmen og blanda við, setja vökva af þurrkuðum tómötum.. látið hugarflugið og bragðlaukana bara ráða.

Blandið öllu saman í skál. Þetta verður þunnt deig, svona eins og pönnukökudeig. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu. Ég mæli með að nota annað hvort sílíkonmottu eða setja eitthvað þungt á pappírinn svo að hann krumpist ekki. Hellið deiginu á plötuna og dreifið úr með sleif eða pönnukökuspaða. Bakið í um 25 mín á blæstri við 140° eða þar til allt er orðið gyllt og stökkt. Takið plötuna út og leyfið flögunum (sem nú eru bara ein stór flaga) að kólna í smá stund. Brjótið þá niður í minni bita og notið til að gúffa í ykkur restinni af Costco hummusnum.

Pizza, level 1 – án alls fyrirvara

DSCF6004

Hér hefur verið ansi hljóðlátt síðustu mánuði. Ég hef verið á kafi í vinnu og aumingja súrdeigsmóðir mín, Betty, bíður angistarfull inní ísskáp. Þar að auki bý ég, eins og góður Íslendingur á fertugsaldri, inná foreldrum mínum þessa dagana (ég er með plan). Betty er búin að vera smá lítil í sér yfir þessum flutningum og ég hef verið að vinna í að koma henni í betra bakteríu-jafnvægi. Verið að sinna henni og peppa hana, svona rétt eins og maður gerir við lifandi hveitidrullu sem maður geymir í krukku, ekki satt? Ég er samt komin með fráhvarfseinkenni frá bakstri og mun örugglega offramleiða brauð næstu vikur.

Ég hef samt bakað smá síðustu mánuði. Ég baka t.d. yfirleitt pizzu á föstudögum. Ég á örugglega 14 mismunandi uppskriftir að pizzabotnum uppí erminni. Það fer nefnilega eftir því hversu mikið álag er á höfðinu hversu flókin uppskriftin getur verið. Og núna, þegar álagið á höfðinu er alltof mikið, þá hef ég eiginlega alltaf gripið í þessa uppskrift. Þessi pizza er þunnbotna. Svona eins þunnbotna og pizza getur verið. En það má gera hana með engum fyrirvara. Og hún er fullkomin fyrir umframsúr. Ég mæli ekki með að nota hana ef að það er langt síðan súrnum ykkar var gefið, meira en 6-8 tímar. Þá verður bragðið af botninum mjög súrt. En sem mjög einföld og fljótleg uppskrift, þá mæli ég með henni.
Eitt enn. Að baka pizzu í ofni er ekki það sama og að baka pizzu í ofni á pizzasteini. Það er eins og að búa til coke með sodastream-vatni og coke-sýrópi eða að fá sér alvöru kók í glerflösku (pizzasteininn verandi kók í glerflösku). Áður en ég fékk mér pizzastein hitaði ég stundum ofnplötu uppí mjög mikinn hita en það gerði ekki brotabrot af því sem pizzasteinn gerir. Eðlilega. Ég get s.s. ekki mælt nógu mikið með því að splæsa í einn slíkan.

Föstudagspizza með hraði – u.þ.b. 15″ pizza
Erfiðleikastig 1 á skalanum 1 til 5

Innihald
1 1/2 bolli af súr
1 1/2 bolli af hveiti
1 msk. ólífuolía
1 tsk. flögusalt
(það má einnig bæta við 1 tsk oregano ef maður vill)

Aðferð
Stillið ofninn á 230°. Ef þið ætlið að baka á pizzastein, byrjið þá á því að setja hann á ofninn og hita á háum hita, gætið þess þó að setja steininn inn í kaldan ofn, annars getur hann brotnað.
Blandið öllum hráefnum saman í skál og vinnið deigið þar til það er orðið mjúkt. Ef ykkur finnst það of þurrt þá getið þið bætt við smá súrdeigsmóður eða smá vatni. Leyfið deginu að hvíla í 30 mín. svo að það verði auðveldara að móta það. Mótið því næst deigið í pizzabotn með því að fletja það út með kökukefli (eða rauðvínsflösku ef þið eigið ekki kökukelfi). Ég nota sjálf bökunarpappír á pizzasteininn minn til að það sé auðveldara að renna pizzunni inn og út úr ofninum. Ég forbaka botninn ekki fyrst ég baka hann á pizzasteini. Mér finnst ekki nauðsynlegt að forbaka hann, þó að maður eigi ekki pizzastein en ef að þið viljið forbaka hann, bakið hann þá í max 5 min. En fylgist vel með honum svo hann bakist ekki of mikið.
Skellið nú álegginu á pizzuna. Ég hvet ykkur til að prufa eitthvað geggjað og nýtt, pizza bianco, geitaost og valhnetur, kartöflur og rósmarín, lax og maskarpóne, pizza með chillílakkrís (það er geggjað!) – allaveg eitthvað meira spennandi en þessi pizza hér að ofan. Sneiðin á myndinni er hin klassíska barnapizza með skinku og osti, þvílík nýjungagirni.
Bakið pizzuna í um 10 til 15 mínútur – gætið þess að fylgjast vel með henni. Ég grilla mína alltaf á hæsta grilli síðustu eina til tvær mínúturnar.

Njótið vel og verði ykkur að góðu!

Amerískar pönnukökur úr súrdeigi

Það er fátt sem ég kann að meta jafn vel og bröns. Að vakna snemma, bardúsa í eldhúsinu og úða í mig óhóflegu magni af kaffi á fastandi maga. Setjast svo og juða í sig gúmmelaði og enn meira kaffi. Helst í góðra vina hópi með ágætis kaffiskjálfta. Og þar sem það er hátíðlegur kosningadagur þá er nauðsynlegt að byrja daginn á bröns og fara yfir samfélagsmálin. Og borða pönnukökur.

Ég hef reynt allskonar pönnukökuuppskriftir í gegnum tíðina en þessi þykir mér alltaf langbest. Pönnukökurnar verða svo loftmiklar og léttar. Þetta er alveg fullkomin uppskrift fyrir umframmagn af súr sem að kona vill ekki hella.

Pönnukökudeig – ca 15 pönnukökur
Erfiðleikastig 1 á skalanum 1 til 5


1 bolli / 230 gr. mjólk
1 1/4 bolli / 165 gr. hveiti
1/4 bolli / 115 gr. spruðlandi hress súr
1 msk olía t.d. kókosolía eða Isio4
1 stórt egg
2 msk sykur / 1 msk agavesýróp
1 tsk matarsódi
1 tsk salt

Blandið saman hveiti, mjólk og súr í skál og leyfið að standa í 30 mín. Ég viðurkenni fúslega að ég nenni alls ekki alltaf að láta soppuna standa en finn ekkert ofsalega mikinn mun. Blandið restinni af hráefnunum við en passið ykkur að hræra deigið ekki of mikið.

Hitið smjör á pönnu. Ég nota sjálf pönnukökupönnu og blanda bráðna smjörinu út í deigið. Deigið á að vera ágætlega þykkt. Ef að þið viljið hafa það þynnra setjið þá aðeins meiri mjólk út í. Þá verða pönnukökurnar eðlilega þynnri. Stundum vil ég hafa þær þykkar og blanda þá smá gríska jógúrt á móti mjólkinni.
Ausið dágóðri slummu á pönnuna og steikið þar til efri hlutinn er orðinn nokkuð þurr og loftkenndur. Snúið pönnsunni þá við og steikið á hinni hliðinni þar til hún er orðin gyllt á lit. Njótið með hlynsýrópi, ávöxtum, súkkulaðismjöri, osti, smjöri, reyktum laxi eða bara hverju sem ykkur lystir. Það er bara mikilvægast að borða mikið og drekka mikið kaffi með og hafa það huggulegt. Og kjósa, það er mjög mikilvægt líka.

po%cc%88nnsurua
Úa blæs á pönnukökurnar til að kæla þær