Tortilla úr súrdeigi

Ein PSA áður en lengra er haldið. Nýbakað er komið á Instagram. Þar er hægt að fylgjast með daglegu súrdeigsbrasi. Líka þegar ég brenni pizzuna og missi allar morgunverðabollurnur í gólfið á leið í ofninn. Ég tek fagnandi við meira súrdeigsspjalli þar.

En að máli málanna. Súrdeigstortilla. Ég er óskaplega þakklát fyrir að eiga þolinmóða fjölskyldu sem umber allt mitt vesen. Við höfum borðað fáránlega seint því að ég hef neitað að borða fyrr en brauðið sem ég er að baka er tilbúið. Þau hafa borðað gallsúrt sætabrauð og látið eins og það sé mjög gott. Og þau hafa borðað allskonar misheppnaðar útgáfur af tortillakökum, m.a. þykkar, litlar, stökkar og súrar, því ég hef lengi verið að reyna að finna almennilega uppskrift. Og loksins tókst mér að gera mjúkar tortilla sem var hægt að rúlla vel út og bökuðust svona ljómandi vel. Dios míó! Mikið var ég glöð því að ég held að tortilla sé alveg fullkominn bakstur fyrir umfram súr.


Súrdeigstortilla – um 6 – 8 miðlungsstórar tortilla-kökur
Erfiðleikastig 2 á skalanum 1 til 5

Tímatillaga: Gefið súrnum kvöldið fyrir bakstur. Blandið deigið morguninn eftir. Rétt fyrir kvöldmat mótið þið svo tortillurnar og steikið þær.

Innihald
220 gr. hveiti (ég notaði 150 gr. af rauðu kornaxi og 70 gr. af manitoba)
5 gr. salt
1 gr. lyftiduft (ca. hálf teskeið)
30 gr. smjör, skorið í litla teninga
65 gr. af súr
100 gr. volgt vatn

Blandið þurrefnunum í skál og hrærið saman. Blandið smjörinu saman við og klípið það þar til það hefur blandast vel við deigið. Ég notaði aðallega deigspaðann minn til þess að gera þetta að það má auðvitað nota hendurnar nú eða þá matvinnsluvél ef maður á slíka græju. Bætið súrdeiginu útí og blandið saman við. Byrjið því næst að blanda vatninu smá saman við. Þar fer svolítið eftir því hvaða hveiti þið notið hversu mikið vatn þið þurfið. Deigið á að vera mjúkt og örlítið blautt.
Þegar deigið hefur náð réttri áferð þá stráið þið hveiti á borð og hnoðið deigið í þar til það er orðið nokkuð slétt og mjúkt. Þetta tók örstutta stund hjá mér, bara örfáar mínútur. Setjið nú deigið í skál og breiðið vel yfir. Leyfið deiginu að standa í 4 – 8 tíma á borði. Ef að þið ætlið að gera tortilla síðar þá má vel geyma degið inní ísskáp í einn til tvo daga. Þá þarf bara að taka það tímanlega út svo að það nái aftur stofuhita. Þetta deig hefar sig ekki svakalega en það lyftir sér þó eitthvað. Það skiptir heldur ekki öllu því þið ætlið hvort eð er að láta það finna fyrir því með kökukeflinu.

Þegar þið eruð til í bakstur takið þið deigið úr skálinni, setjið það á hveitistráð borð og skiptið því í 6 – 8 bita. Byrjið að hita steypujárnspönnu eða pönnu með þykkum botni á miðlungshita. Mótið nú kúlu úr hverjum bita og fletjið hana örlítið út, svo að hver biti sé eins og diskur. Nú þarf að fletja hverja köku út frekar þunnt út. Hafið hveiti til hliðar til að dreifa á hverja köku svo að hún festist ekki við borðið eða kökukeflið. Ef að þið nennið að vera með stæla og eigið pastavél þá mæli ég með að renna hverri köku í gegnum pastavélina og taka svo lokahnikk með kökukeflinu. Ef að þið eigið tortillapressu og viljið vera með enn meiri stæla þá er það náttúrulega enn betra. Ef að þið eigið ekkert af þessu og ekki heldur kökukefli þá má rúlla út með vínflösku.

Þegar pannan er orðin vel heit skellið þið fyrstu tortillunni á hana. Þegar það eru byrjaðar að myndast stórar loftbólur þá skuluð þið snúa tortillunni við. Þetta tekur um eina og hálfa til tvær mínútur. Steikið tortilluna á hinni hliðinni í um eina mínútu. Þegar tortillan er klár setjið hana þá í viskastykki og breiðið yfir á meðan þið græjið restina.
Ég rúllaði út tortillu og á meðan ég steikti hana byrjaði ég að rúlla út næstu. Þannig varð þetta ágætis færibandavinna.

Þessi uppskrift dugði fyrir okkur fjögurra manna fjölskylduna. Það má alveg tvöfalda hana eða þrefalda gera tortillachips úr afganganum, ef einhver er æstur í enn meiri stælagang.

¡Buen provecho!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s