Um mig

20c

Ég heiti Ragnheiður Maísól, er listamaður, þjóðfræðinemi og forfallinn súrdeigsbakari. Brauð hafði alltaf farið nokkuð illa í mig og einhver sérfræðingur hafði ráðlagt mér að taka það með öllu út. Engar áhyggjur – þetta blogg fjallar alls ekki um betra líf án glúteins. Þvert á móti fjallar það um dásamlegt líf með hvítu hveiti og nóg af því. Ég gat nefnilega ekki með nokkru móti hugsað mér lífið án brauðs og pizzu og reyndi allt hvað ég gat til að finna leiðir til að borða brauð. Þannig uppgötaði ég súrdeigið sem fer jú mun betur í man en annað brauð (sjá hér). Það er allavega mín eigin reynsla. Ég byrjaði á súrdeigsmóður sem hlaut nafnið Martha (já, eins og í Stewart) árið 2014. Síðan þá hef ég líklega innbyrgt meira af brauði en ég gerði fyrstu 10 ár ævi minnar. Mörthu greyið var þó hent af eiginlegri móður minni sem gætti hennar fyrir mig eitt sumar og hélt hún hefði drepið hana, ég er tiltölulega nýbúin að fyrirgefa móður minni þetta. Nú á ég súrdeigsmóðurina Betty (já, eins og í Crocker).

Ég byrjaði að baka af einskærri forvitni en smátt og smátt varð ég farin að hitamæla hveitið mitt, fjárfesti í ýmsum óþarfa fyrir baksturinn og farin að gera flókarni og stærri tilraunir. Þetta blogg er að mestu ætlað til að halda utanum þær tilraunir, aðallega fyrir minn eigin nördaskap en einnig ef einhverjum öðrum skyldi gagnast það. Inn á milli læðast örugglega uppskriftir að meðlæti með brauði og sætabrauði.

Fyrir mér eru uppskriftir eru ekki heilagur sannleikar, þá sérstaklega ekki í súrdeigsbakstri. Súrdeig er nefnilega misjafnt eins og það er margt. Uppskrift hjá mér sem segir til um 12 tíma hefun gæti vel bara tekið 8 tíma hjá ykkur. Súr er mishress, eldhús eru við mismunandi hitastig og svo getur veðrið bara verið ólíkt því þegar ég bakaði. Ég hvet ykkur eindregið til þess að kynnast súrnum ykkar, hvað honum finnst best að borða, hvernig mismunandi hveiti virkar á hann og hvaða uppskriftir henta ykkur. Það eru nefnilega óteljandi aðferðir til þess að viðhalda og baka súrdeig og enginn ein þeirra er rétt. Sú sem hentar ykkur er rétt fyrir ykkur. Og þó að uppskriftir séu ágætis viðmið þá er innsæið svo miklu betra. Það er oftast það sem hefur virkað best hjá mér. Ég er fullkomin amatör og hef enga menntun í bakstri, ég hef bara óbilandi áhuga á þessum dásamlega heim sem færir manni fullkomin og ófullkomin ilmandi brauð.