Ég tók mér alveg óvart árspásu frá þessu bloggi, svona rúmlega það, þó svo að ég hafi sannarlega ekki hætt að baka. Ég datt á bólakaf í alltof mikla vinnu, gerði upp íbúð og flutti. Ég hætti samt ekkert að baka þetta ár, ég bakað bara mjög óreglulega og hafði ekki mikinn tíma fyrir flóknar uppskriftir. En núna er ég loksins farin að baka aftur reglulega sem þýðir að ég hef líka tíma fyrir flóknari uppskriftir. Sem þýðir ennfremur að ég geri þessa lúxuspizzu eiginlega alltaf þegar ég baka pizzu.
Eins og ég hef sagt áður þá á ég nokkrar útgáfur af pizzauppskriftum. Þessi uppskrift er sú flóknasta svo að ég mæli ekki sérstaklega með henni fyrir þá sem eru alveg nýir í súrdeigsbakstri, en hún er jafnframt sú allra allra besta. 11 ára sonur minn sagði að þessi pizza væri betri en Domino’s pizza! Það þarf s.s. ekki að rökstyðja þetta neitt meira krakkar. Toppnum er náð.

Pizza, level 3 – sú allra besta
Erfiðleikastig 4 á skalanum 1 til 5
Tímatillaga: Gefið súrnum vel á miðvikudegi, blandið fordeig á fimmtudagsmorgni, blandið og brjótið deigið sjálft á fimmtudagseftirmiðdegi og leyfið því að hefast yfir nótt. Mótið kúlurnar á föstudagsmorgni og leyfið þeim að hefast í ísskáp yfir daginn. Ef að þið hafið nægan tíma þá má vel færa þetta plan fram um hálfan sólahring og leyfa kúlunum að hefast enn lengur. Þá verður pizzan enn betri.
Þessi uppskrift gefur u.þ.b. tvær 15″ pizzur eða þrjár minni.
Hefir
25 gr. spruðlandi hress súr
100 gr. hveiti
25. gr. heilhveiti
100 gr. volgt vatn (hitastigi um 29°C – 32°C)