Beyglur án vandræða

Ég póstaði hinni fínustu beyglu-uppskrift hér fyrir nokkrum árum. Þær eru vissulega góðar en mér fannst uppskriftin alltaf smá vesen, með hefi og þar að auki eggi, svo að þær henta ekki fyrir öll. Hér er því ný og mun einfaldari beygluuppskrift.

Beyglur – Sex 140 gr. beyglur eða um tíu 80 gr. beyglur
Erfiðleikastig 2.5 á skalanum 1 til 5

Tímatillaga: Gefið súrnum að kvöldi, blandið svo deigið morguninn eftir og leyfið deiginu að lyftast yfir daginn, mótið beyglur seinni part, setjið í kæli yfir nótt, sjóðið og bakið morgninn eftir eða tveimur dögum seinna.

Innihald
250 gr. vatn
425 gr. próteinhveiti
75 gr. heilhveiti
100 gr. spruðlandi hress súr
12 gr. flögusalt
Skvetta af hunangi (má sleppa eða nota maltsýróp í staðinn)

Aðferð
Blandið öllu í skál og hrærið í hræirvél á lægsta hraða í 6-7 mínútur. Aukið hraðann og hrærið í 1-2 mínútur. Breiðið yfir skálina og leyfið því að lyfta sér í 6 – 8 tíma, eða þar til það hefur tæplega tvöfaldað sig. Það er gott að leggja rakt viskustykki yfir svo deigið Þór í ekki. Deigið er frekar stíft.

Skafið deiginu á hveitistráð borð í skiptið upp bita 6 bita. Hver biti er um 140 gr. Innskot: ég hef líka gert fleiri minni beyglur úr þessari uppskrift, alveg niður í 80 gr. Það virkar líka en 140 gr. verða mun betri.

Mótið bitana í kúlur eða litlar pylsur og leyfið þeim að hvíla undir viskustykki í 20-30 mínútur. Ef þið mótuðuð kúlur þá mótið þið beyglur með því að klípa gat í miðja kúluna og teygja hana út með þumalputtunum. Ef þið gerðuð pylsur þá mótið þið beyglu með því að teygja pylsuna í hring í kringum puttana og rúlla samskeytunun saman. (sjá t.d undir reel að Instagraminu mínu eða hér) Raðið beyglunum á bökunarplötu og breiðið yfir með bívaxdúki, plastpoka eða álíka. Leyfið nú beyglunum að hefast í ísskáp í a.m.k. 12 tíma. Beyglurnar hafa þolað allt að 48 tíma hefun hjá mér – svona ef að þið þurfið að aðlaga hefun að ykkar dagskrá.

Þegar þið eruð tilbúin að sjóða og baka þá takið þið beyglurnar úr ísskápnum og hitið ofninn á 220 gráður. Hafið ofnskúffu í ofninum til að geta hellt vatni í við upphaf baksturs. Setjið vatn, matarsóda og skvettu af hunangi í pott (má sleppa eða skipta út fyrir maltsýróp) og látið suðuna koma upp. Best er að potturinn sé víður og nokkuð stór. Sjóðið nú hverja beyglu í rúma mínútu á hvorri hlið. Það má alveg sjóða nokkrar beyglur í einu. Ef að þið viljið hafa eitthvað ofaná beyglunum er best að setja það á beint eftir suðu. Ég mæli með parmesan, flögusalti, sesamfræjum eða Everything Bagle kryddi. Það fæst í mörgum matvöruverslunum.

Setjið beyglurnar inní ofn og hellið heitu vatni í ofnskúffuna til að mynda raka. Beyglurnar eru bakaðar í 18 – 20 mínútur eða þar til þær eru gylltar á litinn.

Vandræðahornið – ef beyglurnar sökkva við suðu þá eru þær annað hvort ekki búnar að hefast nógu lengi eða eru orðnar ofhefaðar. Í hefun myndast loft í beyglunum sem lætur þær fljóta.

Grænmeti í súrdeigstempura

Við borðum rosalega mikið grænmeti á okkar heimili. Frá áramótum höfum við verið í áskrift hjá Austurland Food Coop og fáum því vikulega fullan kassa af frábæru grænmeti og ávöxtum. Ég get ekki lýst því hvað ég elska þessa áskrift mikið. Það er svo gaman að elda úr svona góðu hráefni og maturinn verður svo litríkur og fagur. Börnin mín elska þetta og borða eiginlega allt grænmeti af bestu lyst. Í samkomubanninu bjargaði þessi kassi okkur alveg og við biðum spennt eftir kassa vikunar. Af matartengdum hlutum þá elska ég súrdeigið mitt mest, því næst grænmetiskassan og svo Ooni pizzaofninn, svona ef einhver vildi fá röðina á þessu. Ég hef s.s. mikið verið að elda úr nýju grænmeti og prufa nýjar uppskriftir. Og eitt af því er grænmeti í súrdeigstempura. Það er fljótlegt, einfalt og gott ef maður á afgangssúr og grænmeti sem maður veit ekki alveg hvað maður vill gera við. Það er hægt að hafa það sem meðlæti, í hádegismat með salati, sem bjórsnakk..

Það er kannski svolítið ofaukið að kalla þessa uppskrift tempura en mér finnst ekki hægt að segja súrdeigshjúpað grænmeti eða súrdeigsdeig til steikingar. Svo að við köllum þetta bara tempura. Það hljómar smart. Það er kannski líka ofaukið að kalla þetta uppskrift, þetta er bara mun frekar hugmynd sem má útfæra á óteljandi vegu. Ég hef gert tvær týpur, annarsvegar grænmeti steikt eingöngu uppúr súrdeigi en hinsvegar grænmeti sem var fyrst velt uppúr súr og svo uppúr brauðraspi sem að ég gerði úr gömlu súrdeigsbrauði (sjá á efstu mynd). Myndi segja að þannig sé maður algjörlega að maxa hina hagsýnu húsmóður. Ég muldi bara ansi gamalt súrdeigsbrauð og bætti Herbs de Provence, parmesan eða næringargeri, salti og pipar útí. Ég hef líka sett bbq krydd, papriku, chillie duft, cayen pipar. Það er s.s. frjálst val.

Þessir sveppir voru bara steikir uppúr súrdeigi


Það má líka nota svona súrdeigstempura til þess að gera blómkálsvængi með buffaló sósu (kredit á Magneu fyrir það). Bara það sem ykkur dettur í hug. Það besta við þessa uppskrift er að þið getið notað hvaða grænmeti sem er; kartöflur, gulrætur, sveppi, strengjabaunir, rótargrænmeti.. þið skiljið hvert ég er að fara.

Grænmeti í súrdeigstempura
Erfiðleikastig 0 á skalanum 1 til 5

Innihald
Súr – tilvalið að nota afgangssúr
Grænmeti skorið í bita – sjá ábendingu hér að ofan
Dass af vatni eða jurtamjólk
Salt og pipar
Brauðraspur – sjá ábendingu hér að ofan. Má sleppa.
Olía til steikingar

Skerið grænmeti í bita eða strimla og gætið þess að hafa það ekki of þykkt svo að það nái að steikjast í gegn. Setjið svolítið af súr í skál, allavega um einn desilítra. Það þarf samt ekki að mæla, það má bara skvetta. Mér finnst sjálfri best að nota súr svona 4 – 6 tímum eftir fóðrun, annars finnst mér hann stundum verða of súr á bragðið. En, súr er misjafn eins og hann er margur sem og smekkur hvers og eins svo enn einu sinni: you do you. Ef að súrinn er vel þykkur þá er gott að skvetta smá af jurtamjólk eða vatni útí til að þynna hann aðeins. Hann má vera aðeins þynnri en pönnukökudeig. Setjið líka smá salt og pipar útí. Ef að þið ætlið líka að velta grænmetinu uppúr brauðraspi þá setjið þið raspinn í aðra skál. Hitið ágætt magn af olíu á pönnu á meðalhita. Ég vildi ekki djúpsteikja heldur hafa nóg til að geta steikt á báðum hliðum. Veltið grænmetinu uppúr súrnum og brauðraspnum ef vill og steikið á öllum hliðum þar til það er orðið gullbrúnt og steikt í gegn. Ég mæli með að hafa einhverja góða sósu með líka. Ég hef bara gripið það sem er til, chipotle majó, mango aioli, júgórtsósa með kryddjurtum o.s.frv. Þið gerið bara eins og ykkur finnst best.

Verði ykkur að góðu!

Tilraun við einkorn – taka tvö

Ég kem stundum við í Frú Laugu og fjárfesti í einhverju úrvalshveiti frá Mulino Marino. Ég baka yfirleitt úr Kornax hveiti, sérstaklega ef ég er að gera tilraunir, svona til þess að eyða ekki dýru hveiti til einskis. Þegar uppskriftin er orðin skotheld þá reyni ég að færa mig yfir í lífræna stöffið og stundum heppnast það en stundum misheppnast það svakalega. Ég vildi að ég gæti alltaf bakað úr lífrænu hveiti, helst bara átt mína eigin litlu steinmyllu. En það er því miður ekki hlaupið að því að fá gott, lífrænt hveiti í búðum hérlendis. En hvað um það, ég er ekki hér til þess að röfla yfir skorti á hveitiúrvali í Bónus. Ég er hér til að mæra hveitið sem ég keypti. Ég fjárfesti s.s. í einu kg. af einkornahveiti. Ég hef ekki bakað úr því áður en hef oft keypt einkornabrauð.

dscf3793

Einkorn var ein fyrsta korntegundin sem menn ræktuðu. Það hvarf þó nánast alveg úr bakstri til lengri tíma. Það er nefnilega vesen að rækta einkorn. Uppskeran er ekki sérstaklega mikil, stráin og þ.a.l. fræin eru lítil og hvert fræ er þar að auki inni í lítilli skel. Svo að það er líka vesen að mala einkorn. Að því sögðu er einkornið miklu áhugaverðara og hollara en venjulegt hveiti. Það er mun gulbrúnna á lit en venjulegt hveiti, er auðmeltanlegra, sætt á bragðið og hefur örlítin hnetukeim. Það inniheldur einnig mikið prótín, B-vítamín og allan andskotann. Þið getið lesið allt um það hér.

Verandi óþolinmóð og fljótfær las ég mér ekkert til um hveitið heldur henti bara beint í mína hefðbundnu uppskrift að brúnum sveitabrauðum (uppskrift væntanleg) en skipti öllu hveitinu út fyrir einkornið. 700 gr. einkorn, 250 gr. heilhveiti. Það voru mistök. Deigið lyftist illa og bæði brauðin voru ansi flöt. Þau voru góð á bragðið en ekki falleg á að líta. Semsagt æt en ljót. Ég myndaði þau ekki einu sinni heldur opnaði bók þar sem stóð skýrum stöfum að einkorn hefur mjúkan glútenstrúktúr og þarf því annað hvort að blanda það vel með hveiti eða baka í formi. Kona lærir af reynslunni. Ég lagði strax í annað brauð, bara einfalda uppskrift í þetta sinn. Og brauðið heppnaðist líka svona ógurlega vel. Það lyftist mikið og bakaðist svo fallega að ég náði því varla úr pottinum eftir bakstur. Skorpan er extra bragðgóð sem og brauðið sjálft. Svo er það líka mjög fallegt. Sjá uppskrift hér að neðan með því að ýta á Continue reading

dscf3816
Halda áfram að lesa „Tilraun við einkorn – taka tvö“