
Þema októbermánaðar í #bakaþoni eru pítubrauð. Ég hef prufað að baka pítur áður en enginn uppskrift gafst mjög vel svo að ég sullaði saman einhverju til að baka eftir. Ef þið hafið ekki bakað pítur þá mæli ég með að þið gerið það hið snarasta, sama hvort að það sé úr þessari uppskrift eða einhverri annari. Þegar pítur bakast þá blásast þær út í ofninum sem gerir baksturinn að hinni mestu skemmtun.
Þessar pítur eru mjög einfaldar og góðar á bragðið. Það er hægt að blanda deigið að morgni og baka þær svo fyrir kvöldmat. Þær eru ekki svona mjúkar eins og kebab pítur heldur meira svona eins og þessar klassísku pítur sem að flestir hafa einhvertíman keypt í næsta stórmarkaði.
Pítubrauð úr súrdeigi – ca. 10 pítur
Erfiðleikastig 2.5 á skalanum 1 til 5
Tímatillaga: Gefið súrnum að kvöldi og blandið deigið morguninn eftir. Mótið kúlurnar seinni partinn og bakið svo fyrir kvöldmat // EÐA // Gefið súrnum að morgni og blandið deigið að kvöldi, mótið kúlurnar að morgni og látið hefast í ísskáp fram að kvöldmat sama dag og bakið þær þá.
Innihald
350 gr. hveiti (ég notaði Manitoba) – 70%
150 gr. heilhveiti – 30%
280 gr. vatn – 56%
225 gr. súr (ég notaði rúgsúr en það má líka nota hveitisúr) – 50%
25. gr. ólífuolía – 6%
12. gr. salt – 2.5%
Aðferð
Gefið súrnum að kvöldi þannig að þið eigið 225 gr. af súr daginn eftir. Ég mæli með að nota ekki of mikinn súr eða gera hefi (taka slettu af súr og gefa honum) því annars geta píturnar orðið of súrar á bragðið – ég tala af biturri reynslu.
Morguninn eftir, þegar súrinn hefur risið, blandið þið öllu nema saltinu og ca. 20-30 gr. af vatninu gróflega saman og leyfið að standa í 30 mín.
Mér finnst best að leysa saltið upp í vatninu og blanda því svo útí deigið en þið gerið eins og ykkur finnst best. Blandið nú öllu saman í höndunum þar til allt er orðið að ágætri klessu. Deigið er nokkuð stíft.
Ef að þið viljið hræra deigið í hrærivél þá mæli ég með að hræra á lægsta í hita í um 6 mín, leyfa því svo að hvíla í um 30 mín og teygja það nokkrum sinnum yfir sig, eins og með flest öll súrdeig. Endirtakið togið einu sinni enn, ef að þið hafið tíma.
Ef að þið viljið blanda deigið í höndunum þá mæli ég með að teygja það nokkrum yfir sig í 10 mínútuna fresti, alls 4 – 5 sinnum.
Breiðið nú plautt viskastykki eða plastpoka yfir skálina og leyfið deiginu að standa á borði þar til það hefur tvöfaldað sig. Það tók um 6 og hálfan til sjö og hálfan tíma hjá mér.
Hitið ofninn á 240°. Ég mæli innilega með að nota pizzastein (eða pizzaofn, ef að þið eigið slíka). Hafið ofnskúffu einnig í ofninum til að hægt sé að gera gufu.
Skiptið nú deiginu í 10 bita sem eru hver um sig ca. 100 gr. Pítur sem eru mikið stærri en það gætu átt erfitt með að blásast út en auk þess er erfiðara að koma koma stærri pítum í ristavél, ef þess þarf.

Mótið kúlur úr öllum bitunum og leyfið þeim að standa í örfáar mínútur undir viskastykki. Fletið svo hverja kúlu út með kökukefli. Það þarf að passa að hver píta verði ekki of þunn, þá verður hún mjög stökk við bakstur, en heldur ekki of þykk, því þá mun hún eiga erfiðara með að blásast út í bakstri. Þetta gæti verið örlítið „learning-by-doing“ dæmi. Ég mæli með að fletja píturnar út bara rétt áður en hver og ein á að fara í ofninn.
Bakið píturnar á annari hlið þar til þær hafa blásist upp. Þetta tekur um 2 – 3 mínútur á pizzasteini. Ef að þið viljið nota gufu og eigið ekki gufuofn þá er best að hella vatninu beint eftir að pítann fer inn í ofn. Þegar pítan hefur blásist vel upp snúið henni þá við og bakið í um 2 -3 mínútur í viðbót eða þar til hún hefur tekið á sig örlítið gylltan lit.
Ég mæli með að bíða örlítið með að skera þær því þær eru fullar af heitri gufu (hér tala ég líka af biturri reynslu). Svo mæli ég hjartanlega með að fylla þær af einhverju gúmmelaði eins og falafel, grænmeti og Jömm pítösósu, sem er alveg tryllt.
