Lavander- og sítrónusmjörkex

Einu sinni var lítið kaffihús á Laugaveginum sem hét Litli bóndabærinn. Það var rekið af dásamlegum enskum manni sem seldi lífrænt kaffi og heimabakað bakkelsi. Kökurnar voru stórkostlegar, gerðar úr nóg af smjöri og sykri. Þar var t.d. hægt að fá lygilega góða brownie úr kjúklingabaunahveiti. Hún var einu sinni meginuppistaða þess sem ég borðaði þegar ég tók þá fáránlegu ákvörðun að hætta að borða glúten (ég gafst upp mjög fljótlega). En svo lokaði kaffihúsið, því miður. Ég hafði einhvertíman keypt ótrúlega gott lavander-smjörkex hjá þessum yndæla manni. Nokkrum árum síðar byrjaði ég í jóga þar sem lavander og sítrónuvatni var úðað yfir alla í slökun í lok tímans. Ég náði hinsvegar ekki alltaf að slaka því lavanderlyktin minnti mig alltaf á smjörkexið. Svo úr varð að ég gerði mína eigin útgáfu af lavander-smjörkexi með sítrónu – svona samblanda af smjörkexinu og jóganu. Og hjálpi mér allir, þetta kex er algjör dásemd! Það er svo bragðgott en líka óskaplega lekkert eins og konan sagði. Ég held að það yrði t.d. fullkomið með freyðivíni, svo að ég kasti því nú bara svona fram. Að auki ilmar allt extra vel þegar kökurnar eru bakaðar.

DSCF3769

Smjörkex er skoskt að uppruna og er uppskriftin er sáraeinföld, rétt eins súrdeigsbrauð. Einn hluti sykur, tveir hlutar smjör, þrír hlutar mjöl, dass af salti. Eða það segir fræðilega útgáfan þó svo að uppskriftin segi það kannski ekki alveg nákvæmlega. Úr verður hið fínasta kex sem má svo bragðbæta á óteljandi vegu.

Lavander- og sítrónusmjörkex
Erfiðleikastig 1 á skalanum 1 til 5

Innihald
1 msk. þurrkað lavander (fæst t.d. í Heilsuhúsinu)
Rifinn sítrónubörkur af einni sítrónu
1/2 bolli + 1 msk. sykur
225 gr. lint smjör
2 1/2 bolli hveiti
1/4 tsk. salt

Aðferð

DSCF3758

Myljið lavander og matskeið af sykri saman í mortel. Það má líka alveg skella þessu í matvinnsluvél eða hreina kaffikvörn, eigi maður svoleiðis. Ég veit, á myndinni hér að ofan er eins og ég hafi blandað saman kuski og sykri, en ég lofa því að þetta er dásamlegt ilmandi lavander. Rífið börkin af sítrónunni en gætið þess að rífa ekki of langt niður í hvíta partinn, þá verður sítrónubragðið ramt.

DSCF3761

Setjið smjör, sykur, lavandersykurinn og rifna sítrónubörkinn í hrærivél og hrærið á meðalhraða þar til það er orðið létt og ljóst. Bætið hveitinu og saltinu saman við og hrærið á hægum hraða þar til allt hefur blandast saman.

DSCF3764
DSCF3765
DSCF3766

Deigið er nokkuð þurrt og því þarf að hnoða því saman í eina góða klessu. Að lokum er svo hægt að gera eina langa deigpylsu úr deiginu sem er svona sirka á stærð við medalíu. Vefjið pylsunni í plastfilmu eða bökunarpappír og geymið í kæli í allavega 45 min. Það má vel geyma deigpylsuna í kæli í allt að sólahring vilji maður baka daginn eftir. Örugglega lengur, ég hef bara ekki sannreynt það.

DSCF3767

Þegar þið eruð tilbúin að baka stillið ofninn þá á 180° C. Tekið deigpylsuna út og skerið hana í ca 0.5 cm. þykkar sneiðar. Sjálfri finnst mér gott að stinga hnífnum undir heita vatnsbunu og þurrka af á milli. Þá er mjög auðvelt að skera pylsuna.

DSCF3768

Raðið kökunum á bökunarplötu með bökunarpappír og stingið í þær með gafli. Kökurnar stækka ekki mikið en gætið þess semt að þær séu ekki of nálægt hvor annari. Bakið í 8 til 10 min. eða þar til þær eru rétt byrjaðar að brúnast á köntunum. Takið plötuna út og leyfið þeim að standa andartak á plötunni, flytjið þær svo yfir á grind og leyfið þeim að kólna.

Það má auðvitað fletja deigið út og stinga smákökurnar út með smákökuformi eða skera það í þríhyrninga og kassa. Sjálfri finnst mér þessi aðferð bara svo fljótleg og einföld og mér er nokk sama þó þær séu ekki allar akkúrat kringlóttar. Þær klárast hvort eð alltaf strax.

Bon appétit!

Hvað er súrdeig?

Brauð er unaðslegt. Ilmandi nýbakað brauð með dökkri skorpu sem snarkar í, loftmikið, létt og seigt í senn, smurt með smjöri sem bráðnar um leið. Fullkomleikinn í sinni einföldustu mynd. Samt sem áður höfum við undanfarin ár farið að forðast brauðið og jafnvel flokkað það sem hálfgerða óhollustu. Michael Pollan bendir á í heimildarmyndaþáttum sínum Cooked (sem má nálgast á Netflix og eru algjört prima efni fyrir mataráhugafólk) að svo virðist sem glútenóþol sé eitthvað sem við höfum áunnið með okkur á síðustu áratugum. Enda engin furða. Mikið af því brauði sem að við kaupum út í búð er eiginlega ekki lengur brauð. Innihaldslýsingin er orðin að heilli ritgerð og inniheldur efni sem að við höfum ekki hugmynd um hver eru né hvað þau gera. En brauð, hið fullkomna brauð, er samfléttað mannkynssögunni og hefur haldið lífi í okkur í margar aldir. Brauð var uppistaða matarins, haft með hverri máltíð. Án brauðs væri ekkert líf – vort daglegt brauð og allt það. Hið fullkomna brauð samanstendur af hveiti, vatni og salti. Engu öðru. Og til þess að gera hið fullkomna brauð notar maður súr sem búinn er til úr hveiti og vatni.

DSCF3573
Súrdeigsbrauð

Súrdeig þjónar í raun sama tilgangi og ger í brauðbakstri. Það gerir það að verkum að deigið lyftir sér og brauðið verður ekki flatt. Það má því segja að súrdeig sé náttúrulegt ger. Súrdeig má flokka sem slow-cooking mataraðferð því allt hefunarferli er mun hægara en þegar bakað er með geri. Þannig getur tekið allt að 24 tíma, jafnvel meira, að hefa brauðhleif, allt eftir aðstæðum. En látið það ekki stoppa ykkur, súrdeigsbakstur er langt frá því eins flókinn og fólk vill halda. Súrdeigsbrauð ber þar að auki höfuð og herðar yfir venjulegt brauð hvað varðar bragð og útlit. Súrdeig gerir brauðið loftmikið og teygjanlegt, gefur því flókið og dásamlegt bragð og gerir brauðið hollara og auðmeltanlegra. Súrdeigsbrauð endist að auki lengur en gerbrauð.

Til þess að gera gera súrdeig þarf maður það sem kallast súrdeigsmóðir. Í rauninni má hugsa um móðurina sem lifandi ger. Lítil krukka með sinni eigin góðu bakteríuflóru sem þarf að viðhalda. Til þess að búa til súrdeigsmóður blandar maður einfaldlega hveiti og vatni saman og leyfir því að gerjast. Í hveitinu eru náttúrulegir gergerlar sem byrja að vinna og búa til sitt fullkomna umhverfi úr þeim bakteríum sem að þeir finna í hveitinu og fá úr umhverfinu. S.s. eldhúsinu þínu. Það getur tekið nokkra daga fyrir súrdeigsmóðurina að vera orðið nógu sprækt til þess að hægt sé að baka úr henni. Til að viðhalda réttu jafnvægi, þ.e. umhverfinu sem gergerlarnir hafa búið til, þarf að gefa þeim reglulega að borða – fóðra móðurina. Það er einfaldlega gert með því að gefa henni vatn og hveiti reglulega. Gerlarnir borða nefnilega bakteríurnar og mynda þannig loft sem lyftir súrdeigsmóðurinni. Til þess að hægt sé að baka úr súrdeigsmóðurinni þarf hún að vera spræk og vera farin að lyfta sér reglulega.

DSCF3579
Hér má sjá spræka súrdeigsmóður – loftið hefur myndað nokkurskonar strengi

Allur gangur er á hverning fólk byrjar súrdeigsmóður og hverning það fóðrar hana. Sumir byrja súrdeig með örlitlum ananassafa, aðrir nota einungis hveiti og vatn, einhverjir hræra bara í súrdeigsmóðurinni fyrstu dagana áður en þeir fara að gefa henni en aðrir gefa henni reglulega strax frá upphafi. Það er m.a.s. hægt að gera súrdeigsbrauð úr lífrænum eplum eða rúsínum sem leyft er að gerjast og jafnvel bjór. Aðferðirnar eru s.s. óteljandi.

Best er að nota lífrænt hveiti, jafnvel lífrænt rúgmjöl til að búa til súrdeigsmóður. Því lífrænna sem mjölið er og því minna sem það er unnið, því fleiri gerlar og bakteríur eru í hveitinu. Það þýðir meiri matur fyrir gergerlana að borða og vinna úr. Ef þú hefur áhuga á að byrja þína eigin súrdeigsmóður þá geturu fylgt leiðbeiningunum hérna.