Ég hef sagt það áður og mun segja það að eilífu, ég elska lakkrís. Hér á síðunni er jú uppskrift að lakkríssnúðum, ég set lakkrís á pizzu, á popp, í jógúrtið mitt o.s.frv. Ég hef líka reynt að gera lakkrísbrauð (en ekki hvað?) en það hefur aldrei verið the bomb. En mér finnst líka mjög gaman að brasa í því sem fer ofaná brauðið sem ég baka. Ef lakkrísinn skilar sér ekki í brauðinu sjálfu þá þarf bara að bæta honum ofaná það og búa til brúnað lakkríssmjör.
Súrdeigsbrauð – gott, lakkrís – gott, smjör – gott. Blandið öllu saman – hjálpi mér allir!
Brúnað lakkríssmjör
Erfiðleikastig 1 á skalanum 1 til 5
Tímatillaga: Brúnið smjörið um kvöldið og geymið yfir nótt. Blandið öllu saman morgunin eftir.
Innihald
Einn pakki af grænu smjöri (eða bara það magn af smjöri sem er til er)
Lakkríssalt
Skerið smjörið í tvennt. Bræðið helminginn í potti við miðlungshita og hrærið reglulega í á meðan. Það myndast hvít froða ofaná smjörinu og þegar loftbólurnar í froðunni fara að springa gæti verið gott að setja lokið á pottinn í stutta stund svo að smjörið frussist ekki út um allt. Froðan mun fyrst verða hvít, svo gyllt og að lokum karmellubrún. Froðan mun líka hætta að springa. Smjörið sjálft fer frá því að vera gyllt og yfir í að vera ljósbrúnt. Og í ofanálag kemur mjög dásamleg hnetukennd karmellulykt af smjörinu sem er eiginlega yfirnáttúrulega góð.
Þegar þessir töfrar hafa átt sér stað slökkvið þið undir smjörinu og hellið því í skál. Gætið þess að hella öllu úr pottinum í skálina, líka litlu brúnu smjörflygsunum.
Leyfið brúnaða smjörinu að standa yfir nótt á borði og harðna. Ekki setja það inní ísskáp því að þið viljið hafa það mjúkt morgunnn eftir. Látið hinn helminginn af smjörinu líka standa á borði yfir nóttina og ná stofuhita. Morguninn eftir hrærið þið öllu saman í hrærivél eða með handþeytara í góðar 10 mínútur og bætið við nokkrum skvettum af lakkríssalti. Ég hef aldrei mælt magnið af salti heldur bara smakkað smjörið til.
Svo má borða þetta ofnaá brauði eða skonsum eða bara með skeið. Þið ráðið. Smjörið geymist í um 5 daga á borði. Það gæti komið smá skán á það en það er allt í góðu. Það má líka frysta smjörið ef þið náið ekki að klára það á einu bretti eins og gerist stundum á þessu heimili.
Ég sýndi ferlið við þetta á Instagraminu mínu. Þið getið fundið það undir highlights.
Óska hér með eftir góðum systrakaffibolla og smakki af lakkríssmjöri (enda verður allt ögn betra með lakkrís…) 🙂
Líkar viðLíkar við