Ég blogga stundum um súrdeig fyrir heimasíðu Kokku, uppáhalds eldhúsvörubúðina mína. Þar fást náttúrulega fallegustu og bestu pottar veraldar, Lodge combo cooker sem Chad Roberts hjá Tartine í San Fransisco talar mjög mikið um í bókinni sinni. Pottur og panna í einu settu úr steypujárni. Get ekki mælt nógu mikið með þessum potti. En ég var samt að deila uppskrift með þeim sem tengist þessum potti reyndar allskostar ekki neitt. Lúsíubollur úr súrdeigi sem eru saffrankryddaðar brauðbollur. Lúsíuhátíðin er nefnilega haldin í dag, 13. desember. Áður fyrr var talið að þessi dagur væri stysti dagur ársins og þ.a.l. væri nóttin sú lengsta. Til að hrekja burt vonda vætti og ófreskjur taldi fólk að best væri að berjast með söng og ljósi. Og því var hefðin sú að elsta dóttirin í fjölskyldunni vakti foreldrana með kertakrans á höfði, söng, kaffi og nýbökuðum lúsíubollum. Ég mæli með þeim ef að þið viljið henda ykkur í hvíta kirtilinn og fagna Lúsíuhátíðinni.
Ég mæli líka með þessari heimasíðu, The Quest for Sourdough. Síðan er gagnabanki yfir súrdeig og súrdeigsuppskriftir. Fólk getur s.s. bæði deilt uppskriftum og skráð súrinn sinn á heimskort, sem er mjög fyndið prósess. Að auki heldur maðurinn sem er andlit þessarar síðu, úti súrdeigssafni í Belgíu. Hann fer s.s. um heiminn og fær afleggjara af súrdeigi frá frægum bakaríum og stöðum í heiminum. Hann heldur líka út alveg frábærri YouTube rás þar sem hann heimsækir allskonar staði og skoðar súrdeig og bakstur. Vídjóin eru bæði mjög fyndin en líka mjög fróðleg. Ég mæli með í staðinn fyrir jólamynd. Fyrir þá sem vilja alveg nörda í buxurnar.