Lavander- og sítrónusmjörkex

Einu sinni var lítið kaffihús á Laugaveginum sem hét Litli bóndabærinn. Það var rekið af dásamlegum enskum manni sem seldi lífrænt kaffi og heimabakað bakkelsi. Kökurnar voru stórkostlegar, gerðar úr nóg af smjöri og sykri. Þar var t.d. hægt að fá lygilega góða brownie úr kjúklingabaunahveiti. Hún var einu sinni meginuppistaða þess sem ég borðaði þegar ég tók þá fáránlegu ákvörðun að hætta að borða glúten (ég gafst upp mjög fljótlega). En svo lokaði kaffihúsið, því miður. Ég hafði einhvertíman keypt ótrúlega gott lavander-smjörkex hjá þessum yndæla manni. Nokkrum árum síðar byrjaði ég í jóga þar sem lavander og sítrónuvatni var úðað yfir alla í slökun í lok tímans. Ég náði hinsvegar ekki alltaf að slaka því lavanderlyktin minnti mig alltaf á smjörkexið. Svo úr varð að ég gerði mína eigin útgáfu af lavander-smjörkexi með sítrónu – svona samblanda af smjörkexinu og jóganu. Og hjálpi mér allir, þetta kex er algjör dásemd! Það er svo bragðgott en líka óskaplega lekkert eins og konan sagði. Ég held að það yrði t.d. fullkomið með freyðivíni, svo að ég kasti því nú bara svona fram. Að auki ilmar allt extra vel þegar kökurnar eru bakaðar.

DSCF3769

Smjörkex er skoskt að uppruna og er uppskriftin er sáraeinföld, rétt eins súrdeigsbrauð. Einn hluti sykur, tveir hlutar smjör, þrír hlutar mjöl, dass af salti. Eða það segir fræðilega útgáfan þó svo að uppskriftin segi það kannski ekki alveg nákvæmlega. Úr verður hið fínasta kex sem má svo bragðbæta á óteljandi vegu.

Lavander- og sítrónusmjörkex
Erfiðleikastig 1 á skalanum 1 til 5

Innihald
1 msk. þurrkað lavander (fæst t.d. í Heilsuhúsinu)
Rifinn sítrónubörkur af einni sítrónu
1/2 bolli + 1 msk. sykur
225 gr. lint smjör
2 1/2 bolli hveiti
1/4 tsk. salt

Aðferð

DSCF3758

Myljið lavander og matskeið af sykri saman í mortel. Það má líka alveg skella þessu í matvinnsluvél eða hreina kaffikvörn, eigi maður svoleiðis. Ég veit, á myndinni hér að ofan er eins og ég hafi blandað saman kuski og sykri, en ég lofa því að þetta er dásamlegt ilmandi lavander. Rífið börkin af sítrónunni en gætið þess að rífa ekki of langt niður í hvíta partinn, þá verður sítrónubragðið ramt.

DSCF3761

Setjið smjör, sykur, lavandersykurinn og rifna sítrónubörkinn í hrærivél og hrærið á meðalhraða þar til það er orðið létt og ljóst. Bætið hveitinu og saltinu saman við og hrærið á hægum hraða þar til allt hefur blandast saman.

DSCF3764
DSCF3765
DSCF3766

Deigið er nokkuð þurrt og því þarf að hnoða því saman í eina góða klessu. Að lokum er svo hægt að gera eina langa deigpylsu úr deiginu sem er svona sirka á stærð við medalíu. Vefjið pylsunni í plastfilmu eða bökunarpappír og geymið í kæli í allavega 45 min. Það má vel geyma deigpylsuna í kæli í allt að sólahring vilji maður baka daginn eftir. Örugglega lengur, ég hef bara ekki sannreynt það.

DSCF3767

Þegar þið eruð tilbúin að baka stillið ofninn þá á 180° C. Tekið deigpylsuna út og skerið hana í ca 0.5 cm. þykkar sneiðar. Sjálfri finnst mér gott að stinga hnífnum undir heita vatnsbunu og þurrka af á milli. Þá er mjög auðvelt að skera pylsuna.

DSCF3768

Raðið kökunum á bökunarplötu með bökunarpappír og stingið í þær með gafli. Kökurnar stækka ekki mikið en gætið þess semt að þær séu ekki of nálægt hvor annari. Bakið í 8 til 10 min. eða þar til þær eru rétt byrjaðar að brúnast á köntunum. Takið plötuna út og leyfið þeim að standa andartak á plötunni, flytjið þær svo yfir á grind og leyfið þeim að kólna.

Það má auðvitað fletja deigið út og stinga smákökurnar út með smákökuformi eða skera það í þríhyrninga og kassa. Sjálfri finnst mér þessi aðferð bara svo fljótleg og einföld og mér er nokk sama þó þær séu ekki allar akkúrat kringlóttar. Þær klárast hvort eð alltaf strax.

Bon appétit!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s