Sunnudagsbeyglur

Ég hef lengi leitað að hinni fullkomnu beygluuppskrift fyrir sunnudagsbrönsinn. Eftir nokkrar tilraunir held ég að þessi sé nokkuð nærri lagi. Hún er kannski ekki eins og beyglan sé beint úr bakaríi í New York, en hún er samt asskoti góð og einföld þar að auki.

Ég er í bökunarklúbbi með kunningjakonu minni þar sem við prufum einhverja nýja uppskrift samtímis og erum í stöðugu spjalli á Facebook meðan á ferlinu stendur. Hugsa að það gerist ekki nördalegra. Við prufuðum þessa uppskrift fyrst í klúbbnum með ansi slökum árangri. Eins og sjá má á myndinni…

Fyrsta tilraun..

En kunningjakona mín reyndi aftur, jók súrdeigsmagnið og það heppnaðist mun betur hjá henni. Svo ég reyndi aftur með örlitlið fleiri breytingum. Það var því tvöföld gleði að fá svona frábærar beyglur, eftir slappa fyrstu tilraun. Hér er því endurbætt útgáfa af beygluuppskriftinni eftir mig og jarðfræðinginn Söndru Ósk, klúbbfélaga minn og súrdeigsnörd.


Sunnudagsbeyglur– ca 6 beyglur
Erfiðleikastig 2 á skalanum 1 til 5

Tímatillaga: blandið hefinn að morgni, blandið svo deigið að kvöldi og leyfið því að hefast yfir nótt. Sjóðið og bakið beyglurnar morguninn eftir.

Hefir
2 msk. spruðlandi hress súrdeigsmóðir
100 gr. volgt vatn
50 gr. heilhveiti
50 gr. hveiti

Blandið hefi saman. Best er að blanda með höndunum. Hefirinn á að vera álíka þykkur og grautur. Breiðið plastpoka yfir. Látið hefinn standa og leyfið honum að lyfta sér um 20-30%, það tekur um sex til átta tíma, allt eftir hita herbergisins. Hefirinn er tilbúinn þegar hann er léttur og freyðandi og flýtur í vatni. Þá má blanda beygludeygið


Beyglur
500 gr. próteinríkt hveiti
10 gr. salt
20 gr. sykur
25. gr. mjúkt smjör
100 gr. hefir
200 gr. volgt vatn (á milli 30° og 37°)
1 egg (altsvo, hrátt og hrært með gaffli)

Blandið hveiti, salti, sykri og smjöri í skál og leggið til hliðar, þetta er þurrefnið. Hellið vatni í aðra skál og blandið hefinum saman við þar til hann hefur leysts upp í vatninu. Blandið þá hrærða egginu og þurrefninu saman við mixtúruna. Blandið allt saman með höndunum þar til allt hefur blandast vel saman. Deigið er nokkuð stíft. Leyfið deiginu að hvíla í 10 mínútur.

Þetta deig er ekki hnoðað á borði heldur teygt yfir sjálft sig eins og oft er gert í súrdeigsbakstri. Þetta er gert með því að fara undir deigið í skálinni og teygja part af því að miðju deigkúlunnar. Skálinni er snúið og þessi deigteygja, ef við getum kallað hana það, er endurtekin um átta til tíu sinnum. Ef deigið byrjar að rifna áður en þú hefur teygt það átta sinnum þá skaltu hætta. Því næst snýrðu kúlunni við í skálinni og leyfir deiginu að hvíla aftur í tíu mínútur.

Endurtakið teygjuferlið þrisvar sinnum í viðbót.
Breiðið plastpoka eða eitthvað álíka yfir skálina og leyfið deiginu að lyftast yfir nótt.

Morguninn eftir byrjið þið á því að slá létt niður úr deiginu í skálinni. Hellið því svo á hveitistráð borð og skiptið því í sex parta. Formið kúlur úr hverjum partinum. Breiðið viskastykki yfir kúlurnar og leyfið þeim að hvíla í um 10 mínútur.


SuðuSigfús
Beyglur þarf að sjóða áður en þær eru bakaðar. Finnið því til stóran pott og hellið einum lítra af vatni í hann ásamt einni teskeið af salti. Stillið ofninn á 250° á meðan suðan á vatninu kemur upp. Setjið nú bökunarplötu neðarlega í ofninn. Þetta er ekki sama plata og þið notið til að baka beyglurnar á, heldur plata sem þið komið til með að hella vatni í til að mynda gufu í ofninum.

Mótið beyglurnar með því að klípa gat í miðjar bollurnar og víkka það með puttunum. Það má örugglega líka rúlla út pulsu sem er svo látin mynda hring, en ég hef aldrei prufað það – en ég er alltaf hlynnt tilraunastarfsemi. Setjið ósoðnar beyglur á bökunarplötu með bökunarpappír og leyfið þeim að hvíla í 15 mínútur.

Setjið nú beyglurnar varlega í pottinn með sjóðandi vatninu. Sjóðið beygluna í eina til tvær mínútur á hvorri hlið, fiskið hana þá uppúr, helst með gataspaða ef þið eigið slíkan og setjið þær aftur á bökunarplötuna. Leyfið þeim að kólna örlítið.

Pennslið beyglurnar með öðru hrærðu eggi og ef að þið viljið getið þið sett eitthvað ofaná þær núna. T.d. salt, sesamfræ, birkifræ, parmesan.. allt sem væri í boði í góðu beyglubakaríi í New York.

Setjið nú bökunarplötuna með beyglunum í ofninn og hellið um leið um hálfum lítra af vatni í bökunarplötuna sem fyrir var í ofninum. Ég á sjálf ofn með gufu svo að ég bakaði beyglurnar með gufuna á.
Beyglurnar á að baka í 15 mínútur. Ég mæli með að snúa þeim þegar helmingur tímans er liðins.

Ef þið getið, leyfið beyglunum að kólna áður en þær eru borðaðar. Ég mæli með mikið af rjómaosti, reyktum laxi og örlítið af graslauk.

Verði ykkur að góðu!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s